Hvað græðum við á ferðaþjónustu?

Það er furðu algengt að heyra íslendinga tala niður til ferðaþjónustunnar. Það er til dæmis talað um láglaunastörf og að ferðamenn valdi náttúruspjöllum. Ég verð alltaf undrandi á svona tali því mér finnst það bera vott um slæma sjálfsmynd og lítil veruleikatengsl.

Ég var að fá í hendur upplýsingar frá Samtökum Ferðaþjónustunnar. Þar kemur í ljós að gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar árið 2006 voru 47 milljarðar. Hlutfall ferðaþjónustu af vergri þjóðarframleiðslu er langhæst á Íslandi ef Norðurlöndin eru skoðuð eða 6.3% á meðan hlutfallið er 2.5-3% á öðrum Norðurlöndum.

Það sem meira er, ferðaþjónustan dreifir þessum miklu tekjum um allt landið. Ferðamenn sem komu til landsins í fyrra voru um 400.000 og þeir sóttu þjónustu hjá stórum og fjölbreyttum hópi fólks um allt land. Ferðaþjónusta lýtur ekki miðstýringu, henni er ekki stjórnað af ríkisvaldinu eða ríkisfyrirtækjum. Tilkoma netsins og þar með aukið sjálfstæði ferðamanna hefur ýtt undir æ meiri drefingu ferðaþjónustunnar og þar með peninganna. Sú þróun færir m.a. ferðaþjónustuna inní hvern afkima landsins. Ferðaþjónustan skapar störf fyrir bændur, handverksfólk, matvælaframleiðendur, sjómenn, leiðsögumenn, veitinga og gistihúsaeigendur, safnafólk, fornleifafræðinga, bílstjóra, hönnuði, listamenn og hrossaræktendur.

Í ferðaþjónustunni felast miklir möguleikar til uppbyggingar á landsbyggðinni, og til að efla okkar íslensku menningu, án þess að valda þenslu í efnahagslífnu og án þess að ganga á auðlindir okkar. Auðvitað þurfum við að vanda til verka í umhverfismálum en það ætti ekki að vera erfitt því flestir sem koma til Íslands eru náttúruunnendur.

Stóriðjan virkar hins vegar þannig að mikið fjármagn fer í gegnum örfáar hendur og áhrifin eru fyrst og fremst bundin við einn stað. Hún veldur mikilli mengun, náttúruspjöllum og raskar jafnvægi efnahagslífsins.

Einn ferðamaður skilar að meðaltali 93 þúsund krónum í þjóðarbúið. Heilt tonn af áli skapar þjóðarbúinu 28 þúsund krónur (Viðskiptabl. 24.8.05). Mér finnst að skynsemin eigi að ráða atvinnuuppbyggingu á Íslandi.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband