Flugvallamálið

Ég kom fram fyrir hönd Íslandshreyfingarinnar í Kastljósi sjónvarpsins á Egilsstöðum í gær, þar sem rætt var um umhverfismál, og bjó mig undir líflegar umræður um þau mál sem hafa verið efst á baugi og skipta þjóðina verulegau máli: Loftslagsmengun, virkjanir, stóriðja, náttúruvernd og einkavæðing orkugeirans.

Það kom alveg flatt uppá mig, og reyndar einnig Jóhönnu Vigdísi fundarstjóra, þegar spurt var úr sal hvort Ómar Ragnarsson hefði einkaleyfi á að leggja stórar flugbrautir á hálendinu. Ég skildi ekki spurninguna en sagði víst að ég teldi hana útúrsnúning. Eftir á að hyggja tel ég hana lágkúrulegan útúrsnúning.

Það kom mér enn meira á óvart að ritstjóri Morgunblaðsins skyldi finna sig knúinn til að höggva í sama knérunn í Staksteinum í gær, þremur dögum fyrir kosningar. Ég hef í fjögur sumur gengið um hjallana og melana við Jöklu þar sem Ómar lenti flugvélinni sinni og get upplýst þá sem hafa nú allt í einu miklar áhyggjur af náttúruspjöllum á bökkum Jöklu sunnan við Kárahnjúka, að þarna sáust ekki einu sinni hjólför eftir flugvélina hans Ómars.

Mér finnst það varla sæmandi fyrir Morgunblaðið að taka þátt í útúrsnúningum og hálfgerðu níði gagnvart hugsjónamanninum Ómari Ragnarsyni sem hefur í þrjátíu ár varið kröftum sínum til að kenna íslensku þjóðinni að meta landið sitt að verðleikum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband