Færsluflokkur: Ferðalög
6.7.2007 | 13:55
Vonarskarð
Við skruppum uppá öræfi um helgina. Við Sigrún Huld gengum Jökuldalinn (Nýjadal) í Vonarskarð og nutum útsýnis yfir Bárðarbungu, Hágöngur, Trölladyngju og hálendið alltsaman í blíðskaparveðri. Við létum sækja okkur við Dvergöldu eftir langan göngudag. Ég varðaði leiðina GPS punktum en við Sigrún erum að undirbúa 6 daga göngu þar sem gengið verður með Skjálfandafljóti úr Bárðardal að upptökum fljótsins. Við förum um Vonarskarð og þaðan í Nýjadal. Magnað göngusvæði sem sárafáir þekkja. Fyrri hluti gönguleiðarinner er á fyrirhuguðum lónsbotni því eins furðulega og það hljómar þá er enn, í fullri alvöru, verið að tala um að virkja þetta merka fljót við Hrafnabjargarfoss. En við lifum í von um breytt viðhorf.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.7.2007 | 19:30
Náttúruskoðun
Við Margrét Blöndal vorum með námskeið í náttúruskoðun og myndlist fyrir börn í síðustu viku. Þetta var tilraun sem heppnaðist vonum framar. Við fórum með börnin í vettvangsferðir um Reykjanes, Þingvelli og Hengilsvæðið en það er merkilegt hversu fáir þekkja þessi svæði sem þó eru svo nálægt höfuðborginni. Við fórum í jarðfræði, fuglaskoðun, kortalestur, ratvísi, hjálp í viðlögum og matseld undir berum himni. Allir fóru heim sælir og saddir.
Ferðalög | Breytt 6.7.2007 kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)