Vonarskarð

VonarskardVið skruppum uppá öræfi um helgina. Við Sigrún Huld gengum Jökuldalinn (Nýjadal) í Vonarskarð og nutum útsýnis yfir Bárðarbungu, Hágöngur, Trölladyngju og hálendið alltsaman í blíðskaparveðri. Við létum sækja okkur við Dvergöldu eftir langan göngudag. Ég varðaði leiðina GPS punktum en við Sigrún erum að undirbúa 6 daga göngu þar sem gengið verður með Skjálfandafljóti úr Bárðardal að upptökum fljótsins. Við förum um Vonarskarð og þaðan í Nýjadal. Magnað göngusvæði sem sárafáir þekkja. Fyrri hluti gönguleiðarinner er á fyrirhuguðum lónsbotni því eins furðulega og það hljómar þá er enn, í fullri alvöru, verið að tala um að virkja þetta merka fljót við Hrafnabjargarfoss. En við lifum í von um breytt viðhorf.

Skjálfandafljót 


Náttúruskoðun

natturuskodun_myndlist_val - 38Við Margrét Blöndal vorum með námskeið í náttúruskoðun og myndlist fyrir börn í síðustu viku. Þetta var tilraun sem heppnaðist vonum framar. Við fórum með börnin í vettvangsferðir um Reykjanes, Þingvelli og Hengilsvæðið en það er merkilegt hversu fáir þekkja þessi svæði sem þó eru svo nálægt höfuðborginni. Við fórum í jarðfræði, fuglaskoðun, kortalestur, ratvísi, hjálp í viðlögum og matseld undir berum himni. Allir fóru heim sælir og saddir.

Náttúruskoðun


Kanal

Við keyptum íbúð í Berlín ásamt vinum okkar í skemmtilegu hverfi sem heitir Kreuzberg. Gatan heitir Hobrechtstraße og liggur útfrá Maybachufer við Landwehrkanal. Íbúðin er til leigu.

Hér er Berlinartexti sem HS skrifaði

Íbúðin 

Markaðurinn við Maybachufer


Berlín

Ég skrapp til Berlínar í nokkra daga en nú er boðið uppá beint flug þangað nánast daglega. Þegar ég fór fyrst til Vestur-Berlínar var borgin eyja einsog Ísland, múrinn markaði endimörkin einsog sjórinn á Íslandi. Berlín var eyja í miðju Austur Þýskalandi og var engri lík. Þarna bjuggu furðufuglar og listamenn og þeir sem ekki vildu ganga í herinn, maður heyrði aldrei íslensku á götum úti. Múrinn féll nánast fyrirvaralaust og við hlupum furðu lostin út á Potzdamer Platz en síðan hefur allt breyst. Borgin hefur opnast í alla enda og er óviðjafnanleg. Hún er stútfull af fjölbreyttu mannlífi, listasöfnum, leikhúsum, bókabúðum, kaffihúsum, grænmetismörkuðum, almenningsgörðum. Umræða um myndlist, stjórnmál og samfélagsmál er mjög ólík því sem við eigum að venjast. Þegar heim er komið er maður endurnærður en finnur fyrir óræðum söknuði.

 
hopp


Pólitík á góðum degi

 

Við Ómar og Lárus spókuðum okkur í góða veðrinu í dag og spjölluðum við kjósendur. Það var góð stemmning í bænum, spenningur vegna kosninganna en líka léttir vegna þess að nú er loksins komið að þeim. Það skiptir miklu málið að tala við fólk, maður við mann og ég fann það vel hvað fólki finnst Ómar merkilegur maður. Miðað við alla þá sem sögðust ætla að kjósa okkur þá getum við verið vongóð. 

Allir voru í sólskinsskapi, nema þingflokksformaður Samfylkingarinnar Össur Skarphéðinsson. Hann var með starfsbróður sínum Sigurði Kára Kristjánssyni. Ómar heilsaði Össuri kurteislega og glaðlega eins og hans er von að vísa. Við áttum stutt spjall saman en allt í einu hellti Össur sér yfir Ómar með óbótaskömmum fyrir að voga sér að vera í framboði. Ég benti  Össuri á að við byggjum í frjálsu lýðræðissamfélagi þar sem allir hefðu rétt til að bjóða fram.

Össur greip undir handlegginn á Sigurði Kára, leiddi hann með sér í burtu og sagði sposkur á svip; „ég má ekki vera að þessu, við erum í stjórnarmyndunarviðræðum“. Eftir á að hyggja getur vel verið að Össur hafi verið sólskinsskapi allan tímann. 


Flugvallamálið

Ég kom fram fyrir hönd Íslandshreyfingarinnar í Kastljósi sjónvarpsins á Egilsstöðum í gær, þar sem rætt var um umhverfismál, og bjó mig undir líflegar umræður um þau mál sem hafa verið efst á baugi og skipta þjóðina verulegau máli: Loftslagsmengun, virkjanir, stóriðja, náttúruvernd og einkavæðing orkugeirans.

Það kom alveg flatt uppá mig, og reyndar einnig Jóhönnu Vigdísi fundarstjóra, þegar spurt var úr sal hvort Ómar Ragnarsson hefði einkaleyfi á að leggja stórar flugbrautir á hálendinu. Ég skildi ekki spurninguna en sagði víst að ég teldi hana útúrsnúning. Eftir á að hyggja tel ég hana lágkúrulegan útúrsnúning.

Það kom mér enn meira á óvart að ritstjóri Morgunblaðsins skyldi finna sig knúinn til að höggva í sama knérunn í Staksteinum í gær, þremur dögum fyrir kosningar. Ég hef í fjögur sumur gengið um hjallana og melana við Jöklu þar sem Ómar lenti flugvélinni sinni og get upplýst þá sem hafa nú allt í einu miklar áhyggjur af náttúruspjöllum á bökkum Jöklu sunnan við Kárahnjúka, að þarna sáust ekki einu sinni hjólför eftir flugvélina hans Ómars.

Mér finnst það varla sæmandi fyrir Morgunblaðið að taka þátt í útúrsnúningum og hálfgerðu níði gagnvart hugsjónamanninum Ómari Ragnarsyni sem hefur í þrjátíu ár varið kröftum sínum til að kenna íslensku þjóðinni að meta landið sitt að verðleikum.


Hvað græðum við á ferðaþjónustu?

Það er furðu algengt að heyra íslendinga tala niður til ferðaþjónustunnar. Það er til dæmis talað um láglaunastörf og að ferðamenn valdi náttúruspjöllum. Ég verð alltaf undrandi á svona tali því mér finnst það bera vott um slæma sjálfsmynd og lítil veruleikatengsl.

Ég var að fá í hendur upplýsingar frá Samtökum Ferðaþjónustunnar. Þar kemur í ljós að gjaldeyristekjur ferðaþjónustunnar árið 2006 voru 47 milljarðar. Hlutfall ferðaþjónustu af vergri þjóðarframleiðslu er langhæst á Íslandi ef Norðurlöndin eru skoðuð eða 6.3% á meðan hlutfallið er 2.5-3% á öðrum Norðurlöndum.

Það sem meira er, ferðaþjónustan dreifir þessum miklu tekjum um allt landið. Ferðamenn sem komu til landsins í fyrra voru um 400.000 og þeir sóttu þjónustu hjá stórum og fjölbreyttum hópi fólks um allt land. Ferðaþjónusta lýtur ekki miðstýringu, henni er ekki stjórnað af ríkisvaldinu eða ríkisfyrirtækjum. Tilkoma netsins og þar með aukið sjálfstæði ferðamanna hefur ýtt undir æ meiri drefingu ferðaþjónustunnar og þar með peninganna. Sú þróun færir m.a. ferðaþjónustuna inní hvern afkima landsins. Ferðaþjónustan skapar störf fyrir bændur, handverksfólk, matvælaframleiðendur, sjómenn, leiðsögumenn, veitinga og gistihúsaeigendur, safnafólk, fornleifafræðinga, bílstjóra, hönnuði, listamenn og hrossaræktendur.

Í ferðaþjónustunni felast miklir möguleikar til uppbyggingar á landsbyggðinni, og til að efla okkar íslensku menningu, án þess að valda þenslu í efnahagslífnu og án þess að ganga á auðlindir okkar. Auðvitað þurfum við að vanda til verka í umhverfismálum en það ætti ekki að vera erfitt því flestir sem koma til Íslands eru náttúruunnendur.

Stóriðjan virkar hins vegar þannig að mikið fjármagn fer í gegnum örfáar hendur og áhrifin eru fyrst og fremst bundin við einn stað. Hún veldur mikilli mengun, náttúruspjöllum og raskar jafnvægi efnahagslífsins.

Einn ferðamaður skilar að meðaltali 93 þúsund krónum í þjóðarbúið. Heilt tonn af áli skapar þjóðarbúinu 28 þúsund krónur (Viðskiptabl. 24.8.05). Mér finnst að skynsemin eigi að ráða atvinnuuppbyggingu á Íslandi.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband